Skip to main content

Macromyndir til styrktar Krafti

Berglind Þráinsdóttir stendur nú fyrir sýningu á fallegum macro-ljósmyndum sem hún hefur tekið úti í náttúrunni. Allar myndirnar á sýningunni eru til sölu og rennur upphæðin óskert til styrktar Krafti. Sýningin verður haldin frá fimmtudeginum 16. desember kl. 16:30 til kl. 20:00 og föstudeginum 17. desember á sama tíma. Þau sem treysta sér ekki að mæta á þessum tíma geta komið á öðrum tímum á meðan myndir eru til.

„Myndirnar eru afsprengi tveggja áfanga úr Ljósmyndaskólanum þar sem ég vann undir handleiðslu frábærra kennara. Ég vil gefa alla mína vinnu sem og kostnaðinn við framleiðsluna til Krafts þar sem félagið er mér mjög kært. Ég er góð vinkona Ástu Hallgrímsdóttur sem er ekkja Atla Thoroddsson sem lést úr krabbameini fyrir aldur fram fyrir nokkrum árum síðan. Ég veit hvað Kraftur skipti þau máli og hvað félagið er að gera góða hluti fyrir fólk sem á þarf að halda og því vil ég leggja mitt að mörkum til félagsins,“ segir Berglind.

Einstaklega fallegar náttúrumyndir

Hver mynd er sameinuð úr allt að 200 eins ljósmyndum sem eru teknar á sérstaka nálægðarlinsu. Myndirnar eru líkt og abstract listaverk af agnarsmáum mynstrum í náttúrunni sem við náum aldrei að sjá með berum augum á þennan hátt. Hver mynd kemur í einu eintaki í ramma annars vegar og svo öðru eintaki á álplötu. Myndirnar voru rammaðar inn af fyrirtæki í London sem handsmíðar gegnheila viðarramma og notar eingöngu náttúrleg FSC vottuð efni í alla sína framleiðslu. En FSC er sjálfbær skógrækt þar sem ekki eru felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja. Jafnframt tryggir FSC vottun að dýra- og plöntulíf er verndað.

Eins og fyrr greinir rennur öll upphæðin af sölu myndanna til Krafts en álmyndirnar eru í A4 stærð og kosta 20.000 krónur en myndirnar í ramma eru einnig í A4 stærð en ramminn er 34×44 cm og eru þær seldar á 30.000 kr. með rammanum.

Við hvetjum alla eindregið til að kíkja á sýningu Berglindar. Hún tekur einnig á móti gestum heima hjá sér að Hrísholti 1 í Garðabæ á öðrum tíma á meðan að myndirnar eru til en hægt er að senda henni tölvupóst á berglindthrainsphoto@gmail.com eða í síma 895-9599 til að fá nánari upplýsingar eða bóka tíma hjá henni.

Hér má sjá nokkrar af þeim myndum sem eru til sölu á sýningunni.