Skip to main content

Með puttann á púlsinum fyrir Norðan

Tinna Stefánsdóttir hefur bæst í hóp starfsmanna Krafts en hún er staðsett á Akureyri og er umsjónarmaður NorðanKrafts. Tinna er sjúkraþjálfari að mennt en eftir að hafa greinst með krabbamein þurfti hún að breyta um starfsvettvang. Við í Krafti erum mjög heppin að fá hana til liðs við okkur en til að kynnast henni betur ákváðum við að spyrja hana nokkurra spurninga en Tinna verður líka með Take-Over á Instagramreikningi Krafts helgina 8.-9. janúar.

Segðu okkur aðeins frá þér

Ég er þriggja barna móðir og eiginkona búsett á Akureyri sem elska að ferðast en þoli ekki að brjóta saman þvott. Ég er mikil fjölskyldukona með ferðabakteríu, er mjög hress og lífsglöð en algjör klaufi. Ég er í raun út um allt og starfa sem sjúkraþjálfari, styrktarþjálfari, yfirkennari í einkaþjálfaranáminu hjá Keili og ungbarnasundskennari hér á Akureyri. Núna hef ég svo bætt við mig starfi hjá Krafti.

Hver er reynsla þín af krabbameini?

Ég fékk góðkynja æxli í fingur sem gerði það að verkum að ég gat ekki lengur starfað sem sjúkraþjálfari í bekkjarmeðferð og það kollvarpaði mínu lífi því ég átti mína eigin stofu. Æxlið var sum sé í hægri vísifingri og ég er að sjálfsögðu rétthent. Ég byrjaði fyrst að finna fyrir þessu árið 2017 og greindist síðan ári síðar. Árið 2019 fór ég í aðgerð þar sem það var tekið innan úr beininu í fingrinum og það gert holt. Þetta átti svo að gróa og beinið að vaxa aftur sem það gerði að sjálfsögðu ekki og því var ég sett í aðra aðgerð núna í maí þar sem var tekið bein úr framhandlegg og sett í puttann. Ég get samt ekki notað puttann og ekki beitt honum neitt en hann er að minnsta kosti ekki lengur holur að innan.

Þetta olli samt því að ég get ekki lengur notað puttann sem sjúkraþjálfari og þurfti því að breyta um starfsvettvangi. En áskoranir eru skemmtilegar og hafa vissulega komið mér á nýjan og góðan stað. En það er pínu fyndið að segja frá því að ég get ekki einu sinni skafað almennilega af bílnum sem er frekar mikið vesen þegar maður býr hér fyrir norðan.

Af hverju ákvaðstu að sækja um starf hjá Krafti?

Mér fannst það mjög spennandi vettvangur að fara vinna hjá Krafti. Ég hef gaman af því að vera með fólki og gefa af mér og ég sá fyrir mér að það þyrfti einmitt í þetta starf. Ég hef fylgst mikið með Krafti í gegnum tíðina t.d. á samfélagsmiðlum. Ég missti frænku mína úr brjóstakrabbameini þegar hún var um fertugt og vinkona mín greindist með Hodkins krabbamein fyrir fimm árum. Ég hef líka unnið mikið með krabbameinsgreindum í endurhæfingu hér fyrir norðan og þekki því vel til.

Hvernig sérðu starfið fyrir þér í NorðanKrafti?

Ég sé fyrir mér öflugan hóp hérna fyrir norðan sem mun eiga góðar stundir saman, öðlast þekkingu, kynnast, skemmta sér og læra af öðrumi. Mig langar að stækka hópinn og að hann verði öflugri. Við munum gera ýmsa hluti saman sem munu létta okkur lund, láta okkur líða vel og á sama tíma vera líka fræðandi.

Hvað verður fyrsta verkið?

Þann 13. janúar ætlum við að vera með viðburð á netinu þar sem við komum saman til að kynnast betur. Þá ætla ég að vera með smá Kahoot keppni og kynna stefnuna hjá mér og fá líka upplýsingar frá hópnum hvað þau vilja gera í framtíðinni. Viðburðurinn er auglýstur á Facebook síðunni okkar og hlakka ég til að sjá sem flesta.

Við bjóðum Tinnu velkomna til starfa og hlökkum til að vinna með henni í framtíðinni og efla stuðning fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur fyrir norðan.