Skip to main content

Ný sería af hlaðvarpi Krafts

Í tilefni þess að í dag er 4.febrúar – Alþjóðadagur gegn krabbameinum – setjum við í loftið þriðju þáttaröð af hlaðvarpsþáttunum Fokk ég er með krabbamein. Þáttastjórnandi er sem fyrr fjölmiðlakonan Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir en hún mun fá ýmsa góða gesti í hljóðver til sín. Markmiðið með hlaðvarpinu, sem unnið er í samstarfi við Vísi, er að tala tæpitungulaust um krabbamein og allt sem því viðkemur og vekja athygli á málefninu í leiðinni.

Fyrsti þáttur í nýrri þáttaröð heitir: Hvernig getur Kraftur hjálpað þér? En í þættinum ætlum við að kynnast þjónustu félagsins og hvað það er eiginlega sem Kraftur gerir til að styðja við unga krabbameinsgreinda og aðstandendur. Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastýra Krafts, segir frá starfsemi félagsins og hvaða þjónusta er í boði fyrir félagsmenn. En einnig segja tveir félagsmenn Krafts, þau Hafdís Priscilla Magnúsdóttir og Pétur Helgason, frá sinni reynslu og hvernig Kraftur hefur hjálpað þeim í þeirra baráttu.

Hafdís greindist 35 ára með brjóstakrabbamein en eins og hún segir sjálf þá er rosalega gott að vita ekkert hvað Kraftur er því þá þýðir það í raun að maður þarf ekki á honum að halda en það sé svo frábært að geta gengið að honum greiðum þegar á reynir. Pétur var 40 ára þegar konan hans greindist með brjóstakrabbamein en þau eiga fjögur börn saman. Hann og eiginkona hans, Brynhildur, hafa nýtt sér ýmsa þjónustu og stuðning hjá Krafti.

Þátturinn er kominn inn á allar helstu hlaðvarpsveitur. Við mælum eindregið með því að þið hlustið á hlaðvarpsþáttinn á Spotify rás Krafts og fylgið hlaðvarpinu til að fá tilkynningar þegar nýr þáttur fer í loftið.