Skip to main content

Nýr fræðslu- og hagsmunafulltrúi Krafts

Inga Bryndís Árnadóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Krafti en hún mun sinna fræðslu og hagsmunamálum félagsins. Inga er nýflutt heim frá Danmörku en hún hefur búið þar síðustu 10 ár. Kynnumst Ingu aðeins nánar.

Inga er fædd og uppalin á Akureyri og enn glittir í norðlensku í tali hennar þó að danskan hafi aðeins linmælt hana. „Ég ákvað að flytja út eftir stúdentspróf því mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Ég ætlaði ekkert endilega til Danmerkur en besta vinkona mín var á leiðinni þangað svo ég bara fylgdi. Mig langaði miklu meira til Suður-Ameríku en umfram allt langaði mig bara í burtu frá eyjunni og í ævintýri. Ég ílengdist svo í Danmörku mun lengur en ég ætlaði mér,“ segir Inga. Hún byrjaði á að fókusera á að læra dönsku almennilega og endaði svo á að taka BA gráðu í menningarmiðlun og alþjóðafræðum og mastersgráðu í alþjóðasamskiptum og þróunarfræðum með sérhæfingu innan alþjóðaflóttamannafræða. „Ég hef mestmegnis unnið við hagsmunagæslu fyrir flóttafólk en á síðasta ári vann ég fyrir menningarmiðstöð fyrir Ísland, Færeyjar og Grænland. Þarna á milli tók ég mér smá pásu frá Danmörku og flutti til Jórdaníu árið 2019 og starfaði við alþjóðlega samhæfingu innan Amman Center For Human Rights Studies. En svo kom Covid og þá breyttist allt “ bætir Inga við.
Þegar Covid-faraldurinn skall á ákvað Inga að fara aftur til Kaupmannahafnar en henni fannst Covid setja hlutina í samhengi fyrir sig og ári síðar var hún flutt aftur heim til Íslands eftir 10 ára fjarveru. „Ég ætlaði aldrei að flytja aftur heim.En svo kom Covid og ég kíkti heim til Íslands í bylgju 1 eða 2. Svo bara skaust æskuást aftur upp og ég fór að hitta gamlan kærasta frá unglingsárum og er nú flutt heim og bý með kærasta, tveimur stjúpbörnum og ketti,“ segir Inga og hlær dátt.

GREINDIST TVISVAR Á SAMA ÁRI

Í mars árið 2016 greindist Inga með stórt æxli í móðurlífi. Æxlið var á stærð við barnshöfuð og var tekið með skurðaðgerð. Nokkrum mánuðum síðar eða um miðjan desember greindist hún svo með annað æxli í heila og var það á við tennisbolta að stærð. „Ég fór í aðgerð strax eftir jólin og var æxlið tekið. Það náðist allt en það var reyndar vesen að vekja mig eftir aðgerðina og lá ég í tvær vikur á spítala. Eftir aðgerðina er ég heyrnarlaus á vinstra eyra og á ég að nota heyrnartæki en ég vil það ekki því þá finnst mér ég heyra allt of mikið og það er of mikið áreiti“, segir Inga hlæjandi. Inga segist alltaf hafa vitað að það væri eitthvað ekki alveg í lagi áður en hún greindist. En hún var ekki tilbúin að takast á við það. „Ég er með sterkt innsæi og fann alltaf á mér að ég myndi greinast með krabbamein fyrir 30 ára aldur. Ég vissi að það var eitthvað í ólagi en ég var ekki tilbúin að fara til læknis því þá gæti ég ekki verið frjáls og lifað og gert það sem ég vildi. Því ég vildi ferðast og njóta,“ segir Inga. En svo urðu höfuðverkirnir, þrýstingur, jafnvægisskortur og heyrnarleysi yfirgnæfandi og hún ákvað þegar hún var 26 ára að fara loksins til læknis og þá finnst æxlið. „En í alvöru, hver greinist tvisvar sinnum með æxli á einu ári?,“ bætir Inga við.

AF HVERJU KRAFTUR?

En af hverju ákvað hún að sækja um starf hjá Krafti? „Ég leitaði sjálf til Krafts árið 2017 þegar ég var heima á Íslandi í slökun og endurhæfingu eftir heilaaðgerðina. Þá benti mér einhver á Kraft og ég fór og hitti Þorra sálfræðing. Á þessum tíma þekkti ég engan sem hafði upplifað svipað og það var dásamlegt að geta komið og pústað við Þorra,“ segir Inga. Svo sá hún auglýsingu frá Krafti um það leyti sem hún var að flytja núna heim og var ekki lengi að slá til og sækja um. „Ég trúi sko ekki á tilviljanir. Ég bara vissi þegar ég sá auglýsinguna að þarna var starfið mitt. Þarna væri svo sannarlega málstaður sem ég var til í að vinna með og vissi að ég gæti lagt mikið til félagsins,“ segir Inga. Inga ætlar að fókusera fyrst um sinn á hagsmunagæslu fyrir félagsmenn. „Ég sé fyrir mér að taka slaginn fyrir alla félagsmenn þegar á þarf að halda og ég er algjörlega óhrædd við að pota í kerfið. Ég er rosalega spennt fyrir þessu verkefni og er jákvæð og bjartsýn eins og alltaf og kem svo sannarlega tvíefld til leiks,“ segir Inga að lokum. Einnig mun Inga sjá um fræðsluhluta félagsins og er verið að móta hvernig er hægt að efla hann enn frekar. Ljóst er að Ingu skortir hvorki kjark né kraft og erum við í Krafti svo heppin að Inga er komin til starfa hjá félaginu og bjóðum við hana velkomna í hópinn. Hún er svo sannarlega dásamleg viðbót við í okkar flotta og kröftuga hóp.