Skip to main content

Nýtt Lífið er núna armband komið í sölu

Nýtt Lífið er núna armband hefur litið dagsins ljós og er sala á því hafin hjá Krafti og Krónunni. Armbandið í ár er svart að undanskilinni einni appelsínugulri perlu. Armbandið er selt til stuðnings félaginu og starfi þess í þágu ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda.

Hver perla hefur sína sögu er yfirskrift fjáröflunar- og árvekniátaks Krafts sem stendur nú yfir og er armbandið selt samhliða átakinu. Armbandið er að sjálfsögðu með slagorðum Krafts „Lífið er núna“ en með því að bera armbandið sýnir fólk stuðning í verki.

„Við ákváðum í ár að armbandið væri svart fyrir utan eina perlu sem er appelsínugul. Það er afar misjafnt hvaða merkingu fólk setur í armbandið og perlurnar en við vitum að allar perlur hafa sína sögu. Allir hafa sína sögu og finna sína merkingu. Appelsínugula perlan í armbandinu getur táknað Kraft, von, vernd, minningu, þig, einhvern sem er nærkominn þér, núið eða hvað sem er. En með því að bera armbandið sýnir fólk stuðning sem það jafnvel áttar sig ekki alveg á. En félagsmenn okkar finna ætíð fyrir meðbyr og stuðningi þegar þeir sjá aðra með armböndin,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Öll armböndin eru perluð af sjálfboðaliðum og rennur allur ágóði þeirra í starf Krafts. Armböndin eru fáanlega á skrifstofu Krafts, Skógarhlíð 8 sem og í vefverslun Krafts.

Að auki eru armböndin fáanlega í völdum verslunum Krónunnar: Bíldshöfða, Borgartúni, Flatahrauni, Granda, Lindum, Mosfellsbæ, Norðurhellu og Selfossi sem og í vefverslun Krónunnar.

Berum armbandið og sýnum stuðning í verki.