Skip to main content

Opnunarhátíð Krafts

By 3. febrúar 2025Fréttir

Í síðustu viku hleyptum við fjáröflunar- og vitundarvakningarátakinu okkar „Lífið er núna“ af stokkunum, en yfirskrift átaksins í ár er “Ég á lítinn skrítinn skugga – Lífið er núna” og vísar til þeirra langtímaáhrifa sem það hefur að greinast ungur með krabbamein, ekki bara á þann sem greinist heldur einnig á aðstandendur.

Opnunarhátíð herferðar var haldin fimmtudaginn 23. janúar, í verslun Rammagerðarinnar á Laugavegi 31. Frumsýnd var auglýsing vitundarvakningarinnar 2025, nýja Lífið er núna húfan var kynnt til leiks og dyrnar opnaðar að glæsilegri Tótu Van Helzing sýningu í Rammagerðinni. DJ Dóra Júlía hélt uppi stuðinu, auk þess stigu Jónsi, Hipsumhaps og Una Torfa á svið en öll voru þau vinir Tótu Van Helzing.

Margt var um manninn en um 200 manns fögnuðu með okkur, skáluðu í boði TÖST og nutu gómsætra veitinga í boði Innnes.

„Húfur til heiðurs systur minni og í hennar anda“

Vitundarvakningin er stærsta fjáröflun félagsins og er Lífið er núna húfan mikilvægur hluti átaksins. Í ár er hönnun húfunnar innblásin af verkum listakonunnar Tótu Van Helzing sem var félagsmaður Krafts og stórkostlegur prjónahönnuður. Tóta var 31 árs þegar hún lést árið 2021 en það var Vala systir hennar sem ákvað að þar með lyki ekki hennar sögu. Sem hluti af því ferli tóku Vala og Kraftur höndum saman og húfurnar í ár heiðra minningu Tótu.

Um samstarfið hér

„Það er okkur hjá Krafti heiður að hafa fengið að nýta innblástur frá verkum Tótu Van Helzing við hönnum á nýju Lífið er núna-húfunni og munum við bjóða uppá Tótu Van Helzing sýningu „HOUSE OF VAN HELZING“ í Rammagerðinni á meðan vitundarvakningu okkar stendur, til 12. febrúar”, segir Katrín Petersen, markaðs- og samskiptastjóri Krafts.

Markmið átaksins er að vekja athygli á mikilvægi starfsemi Krafts og veita fólki innsýn inn í þær áskoranir sem fylgja því að greinast ungur með krabbamein eða vera aðstandandi, en um 70 ungir einstaklingar á aldrinum 18-40 ára greinast á ári hverju hér á landi. Hvort sem við höfum greinst með krabbamein, einhver okkur nákominn eða við orðið fyrir öðrum áföllum á lífsleiðinni, þá eigum við öll okkar skugga sem er alltaf til staðar. Stundum er skugginn stór, stundum verður hann að daufum útlínum og stundum hverfur hann alveg um tíma. Skugginn er þögull ferðafélagi, hluti af lífi okkar allra.

Innilegar þakkir fá:

  • Tónlistarfólkið, Jónsi, Hipsumhaps, Una Torfa og DJ Dóra Júlía
  • Rammagerðin fyrir að hýsa viðburðinn
  • Ölgerðin fyrir drykkina
  • TÖST fyrir fordrykkinn
  • Innnes fyrir veitingar
  • Sonik tæknilausnir fyrir lán á öllum tækjabúnaði
  • Róbert fyrir video

Myndir frá opnunarviðburðinum má sjá hér fyrir neðan og skemmtilegt video hér!

Close Menu