Skip to main content

Perlað af Krafti með sól í hjarta

Í gær stóð Kraftur fyrir risastórum perluviðburði í Hörpu þar sem yfir þúsund sjálfboðaliðar komu saman og lögðu hönd á perlu. Perluð voru ný „Lífið er núna“ armbönd af fólki á öllum aldri og var mikil stemning á svæðinu. Í heildina perluðu sjálfboðaliðarnir 3.055 armbönd á fjórum tímum.

„Lífið er núna“ armböndin eru ein helsta fjáröflunarleið Krafts og því eru viðburðir sem þessir afar mikilvægir félaginu. „Þetta var alveg einstaklega fallegur og sólríkur dagur. Það gaf okkur svo sannarlega sól í hjarta að sjá hversu margir lögðu leið sína til okkar og komu inn úr sólinni til að leggja málstaðnum lið. Án allra þessara sjálfboðaliða væri það ekki möguleiki fyrir okkur að hjálpa öðrum sem þurfa á stuðningi Krafts að halda,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts eftir viðburðinn. Eitthvað var um bílastæðavanda á svæðinu en það kom ekki að sök þar sem Hopp bauð öllum að hoppa frítt í Hörpu á meðan á viðburðinum stóð.

Perlað var í fjóra tíma frá kl. 13:00 til 17:00 og var ýmis skemmtun á svæðinu. DJ Sóley sá um að halda uppi fjöri og skemmtilegri stemningu á meðan fólk perlaði. Herra Hnetusmjör mætti á svæðið og tók nokkra slagara. Gedda gulrót og Rauða eplið úr Ávaxtakörfunni skelltu sér líka upp á svið við mikinn fögnuð viðstaddra. Una Torfa flutti ljúfa tóna og Vigdís Hafliðadóttir og Ragnhildur Veigarsdóttir úr Flott stigu einnig á stokk. DJ Sóley hvatti alla perlarana einnig áfram með því að tilkynna nýjasta fjölda armbanda sem var búið að perla á stundinni.

Allir sjálfboðaliðar gátu gætt sér á ýmsum veitingum. Í boði voru ávextir á ávaxtahjóli og ýmislegt annað gúmmílaði frá Krónunni, kaffi frá Kaffitár og gotterí með kaffinu frá O.J. Kaaber, drykkir frá Ölgerðinni og Joe and the Juice var með Pop up djúsbar. Viðstaddir gátu líka tekið myndir af sér í myndakassa frá Instagram til að festa augnablikið enn betur á filmu.

Við í Krafti þökkum öllum þeim sem gerðu okkur kleift að láta þennan dag verða að veruleika. Þá ekki síst þeim sem lögðu sitt að mörkum við að perla sem og við undirbúning viðburðarins.

Nú geta allir nálgast nýja „Lífið er núna“ armbandið á www.lifidernuna.is, völdum verslunum Krónunnar og vefverslun Krónunnar.

Hér má sjá myndir frá viðburðinum: 

Þökkum innilega eftirfarandi sem hjálpaðu við að gera perluviðburðinn að veruleika: