Skip to main content

Perlur um land allt

Kraftur skellti sér hringinn í kringum landið í febrúar og perlaði ný Lífið er núna armbönd víðsvegar um landið. Árvekni- og fjáröflunarátak Krafts hófst í Hörpu í Reykjavík 21. janúar síðastliðinn með pompi og prakt, þar var vægast sagt húsfyllir og gríðarlega mikil ánægja með viðburðinn. Við ákváðum í kjölfarið að skella okkur hringinn svo að langflestir landsmenn hefðu möguleika á því að leggja hönd á perlu og hjálpa þannig okkur að hjálpa öðrum.

Hringferð með hraði

Fyrst var haldið norður á Akureyri og var perlað af krafti í Háskólanum á Akureyri þann 2. febrúar. Metfjöldi mætti á svæðið og var Guðlaug Ragnarsdóttir, starfsmaður Krafts, í skýjunum yfir mætingunni en um 1200 armbönd voru perluð á viðburðinum. Guðlaug sagði í viðtali við Akureyri.net að salurinn sem tók um það bil 250 manns troðfylltist strax og var opnað í alls kyns sali til að redda fólki. „Ég get alveg sagt að ég bjóst ekki við þessu. Akureyringar eru aldeilis búnir að koma okkur á óvart! Fjöldinn er ótrúlegur og ég er alveg orðlaus, sagði Guðlaug í viðtalinu.

Því næst hélt Guðlaug til Neskaupstaðar þar sem hún vægast sagt skransaði inn í bæinn eftir hálkuferð að Norðan. Allir sem gátu hjálpuðu henni að skella upp öllu fyrir flottan perluviðburð og á endingu mættu um 220 manns og perluðu um 700 armbönd. Að lokum var förinni í þessum rikk heitið á Höfn í Hornafirði þar sem Hornfirðingar áttu notalega stund við perlun hjá Döddu á Árnanesi þar sem um 60 manns komu saman og perluðu 190 armbönd.

Ævintýrið heldur áfram

Perluævintýrið var alls ekki búið því Selfoss tók á móti Krafti á Hótel Selfossi þann 6. febrúar. Þar komu um 200 manns saman og perluðu 915 armbönd. Upphaflega átti viðburðurinn að vera í litlum sal í Tryggvaskála en svo varð áhuginn svo mikill á Selfossi að ákveðið var að breyta um vettvang sem að heldur betur borgaði sig.

Sunnudaginn 11. febrúar fór Kraftur svo á Akranes þar sem að Team Tinna tók innilega á móti okkur í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Félagið TeamTinna var stofnað til heiðurs Tinnu Óskar Grímarsdóttur en hún var félagsmaður í Krafti og lést úr krabbameini fyrir um ári síðan. Mikill samhugur var í Skagamönnum og mættu þar um 300 manns og hófst mikil keppni í að ná að perla meira en Selfyssingar sem að vissulega tókst þar sem Skagamenn perluðu 1033 armbönd.

Þessari lotu mun svo ljúka þriðjudaginn 13. febrúar þar sem Kraftur mun fara á Borgarnes og perla þar milli klukkan 15 og 18 í Safnahúsi Borgarfjarðar.

——–

Öll Lífið er núna armböndin eru perluð af kröftugum sjálfboðaliðum og viljum við þakka þeim öllum innilega fyrir stuðninginn sem og Krabbameinsfélaginu á Akrueyri, Austurlandi, Austfjörðum og Akranesi sem lögðu okkur lið í þessari kraftmiklu hringferð.