Skip to main content

Sálfræðiþjónusta færð undir Sjúkratryggingar

Stjórn og starfsfólk Krafts er einstaklega ánægt með þá niðurstöðu sem Þingheimur samþykkti fyrir sumarfrí að fella nauðsynlegar sálfræðimeðferðir og aðrar klínískar viðtalsmeðferðir undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands.

„Við höfum verið að benda á þetta í fjölmörg ár að sálfræðiþjónustan og aðrar viðtalsmeðferðir ættu að falla undir greiðsluþátttökukerfið alveg eins og er á Norðurlöndunum og við erum himinlifandi yfir því að nú hefur það loksins verið samþykkt,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. Kraftur býður félagsmönnum sínum upp á endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu en algengt er að einstaklingar þurfi á bilinu 10-15 meðferðartíma hjá sálfræðingi í viðtalsmeðferð. „Þar sem Kraftur er bara með einn sálfræðing nær hann ekki að sinna öllum tilfellum í svona marga meðferðartíma og því er einstaklega ánægjulegt að greiðsluþátttökukerfið muni nú loksins koma til móts við útgjöld félagsmanna okkar. Það er líka hagur fólks að það sé aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu þannig að það gefur fólki meira rými til að velja sér þann sálfræðing sem hentar því,“ segir Hulda enn fremur. Hingað til hefur sálfræðikostnaður verið mjög dýr kostnaðarliður krabbameinsgreindra og aðstandenda. Þar af leiðandi er þetta mikið fagnaðarefni að sálfræðiþjónusta sé partur af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Það mun þó taka einhvern tíma fyrir greiðsluþátttökukerfið að fara af stað en samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands verður það í fyrsta lagi um áramótin 2021 og mun félagið fylgja því eftir.