Skip to main content

Seldu listaverk og studdu Kraft

Jóhanna Katrín Pálsdóttir eða Hanna, eins og hún var alltaf kölluð, lést úr lungnakrabbameini árið 2017 þá 83 ára gömul. Hanna hóf að mála listaverk á efri árum og eftir andlát hennar ákváðu afkomendur að selja listaverkin hennar til stuðnings Krafti.

Nýverið styrktu afkomendur Hönnu Kraft um 472.713 krónur. Að sögn þeirra þá fann Hanna alltaf mikla samleið með sér yngra fólki og margir af hennar bestu vinum á efri árum voru mun yngri en hún. Þrátt fyrir að hafa lengst af starfað í banka þá starfaði hún einnig við kennslu á yngri árum og tók virkan þátt í starfsemi skiptinemasamtaka í fjöldamörg ár. Afkomendurnir telja að það hefði glatt Hönnu mikið ef áhugamál hennar og listsköpun mátti verða til þess að styðja við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

„Þetta er alveg einstakt og við í Krafti erum ekkert smá þakklát fyrir þennan veglega styrk. Hanna hefur greinilega verið dásamleg kona og augljóst að afkomendur hennar hafa sömu hjartahlýju og hún virðist hafa haft. Þessi styrkur mun svo sannarlega koma að góðum notum fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Afkomendur kröfðust ekki fastrar greiðslu fyrir verkin heldur óskuðu eftir því að þiggjendur verka létu af hendi rakna frjáls framlög annað hvort með greiðslu á reikning afkomanda eða sem beint framlag til Krafts.

Lengi lifi minning Hönnu Pálsdóttur