Skip to main content

Settu upp Lífið er núna armbönd í stað hringa

Gunnar Viktorsson og Harpa Hrönn Sigurðardóttir ákváðu í skyndi að gifta sig síðastliðinn föstudag, 26. janúar og í þess að draga hringa á fingur ákváðu þau að setja upp Lífið er núna armböndin.

Gunnar og Harpa giftu sig á 37 ára trúlofunarafmælinu. „Við héldum að þetta væri ekkert mál að skella sér bara til sýslumanns og gifta sig. En við komumst að því að svo er bara alls ekki. Það var ekkert laust hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fyrr en í maí en við vorum svo heppin að þau hjá Sýslumanninum í Reykjanesbæ voru svo liðleg að gifta okkur,“ segir Gunnar. Parið var ekki með hringa en Harpa ákvað að skella sér út í búð og kaupa nýja Lífið er núna armbandið frá Krafti og nota nýbökuðu hjónin nú armbandið sem giftingarskart í stað hringa.

„Við höfum alltaf keypt þessi armbönd og okkur finnst armbandið sérstaklega fallegt í ár. Gullitað og hátíðlegt og því tilvalið sem giftingarhringur ef svo má segja. Þessi setning Lífið er núna á bara svo sérlega líka vel við og okkur þykir einstaklega vænt um hana. Nú tek ég armbandið kannski rétt af mér á meðan ég sef en annars verður það alltaf með mér eins og Harpa mín,“ bætir Gunnar við.

Nýbökuðu hjónin skelltu sér beint í brúðkaupsferð með Bændaferðum daginn eftir brúðkaupið. Þau eyða hveitibrauðsdögunum í gönguskíðaferð í bænum Seefeld í Austurríki en þar voru þessar dásamlegu myndir teknar af Ragnhildi Aðalsteinsdóttur.