Skip to main content

Skapa fötin manninn?

By 26. ágúst 2019mars 25th, 2024Fréttir

Á Menningarnótt opnaði Kraftur sína fyrstu ljósmyndasýningu. Ljósmyndasýningin er samstarfsverkefni Krafts og ljósmyndarans Kára Sverriss og verður sýningin fyrir utan Hörpu framyfir miðjan september. Sýningin ber nafnið Skapa örin manninn og er þar tískufatnaði blandað saman við ör en allar fyrirsæturnar hafa greinst með krabbamein og bera þess merki.

Fjöldi fólks var fyrir utan Hörpu þegar sýningin var opnuð formlega af Huldu Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóra Krafts. Hulda þakkaði sérstaklega þeim tólf hugrökku einstaklingum sem voru tilbúin að opinbera sig og sýna örin sín en þau geta svo sannarlega borið þau með stolti þar sem þau eru vitnisburður um þeirra sigra. „Það er mikill heiður að fá að vinna þetta verkefni með Krafti og þeim hetjum sem eru hér á myndunum. Samstarfið hefur verið alveg hreint frábært og ég var einstaklega ánægður að Kraftur tók svona vel í hugmyndina mína og að þetta sé orðið að veruleika. Að vinna með fagfólki eins og Sigrúnu Ástu Jörgensen sem stílesaraði allar fyrirsæturnar og Söru Dögg Johansen sem sá um hár og förðun var líka alveg einstakt,“ sagði Kári Sverriss ljósmyndari á opnuninni.

Ljósmyndasýningin er haldin í tilefni af 20 ára starfsafmæli Krafts og hvetur Hulda fólk til að gera sér leið fyrir utan Hörpu og skoða þessar einstöku myndir. „Það skiptir miklu máli að við tölum opinskátt um veikindin og því sem þeim fylgir. Örin eru eitthvað sem að við ættum aldrei að þurfa fela heldur eru þau partur af okkur. Það er heiður fyrir félagið að fá að opna sýningu sem þessa á Menningarnótt. Ég vil þakka Kára innilega fyrir sem og öllum þeim sem gáfu vinnu sína og komu að sýningunni á einn eða annan hátt,“ segir Hulda að lokum.

Kraftur þakkar einnig Reykjavíkurborg, Menningarnótt, Hörpu, Litróf, Pixel, Exmerkt, Þórdísi Reynis ljósmyndara, Rakel Ernu Skarphéðinsdóttur, Alt Retouch, Sissu og Ljósmyndaskólanum fyrir alla þeirra vinnu og aðstoð. Sem og Nicholas Granger, Hlín Arngrímsdóttur og Steinunni Hrafnan sem aðstoðuðu við tökurnar og öllum þeim hönnuðum og verslunum sem lánuðu föt fyrir ljósmyndasýninguna.

Það er hægt að nota #skapafötinmanninn ef fólk vill deila myndum á samfélagsmiðlum af sýningunni. Eins og fyrr greinir verður sýningin fyrir utan Hörpu framyfir miðjan september en hér má sjá myndir frá opnuninni.