Skip to main content

Snjódrífur söfnuðu 6 milljónir króna með göngu sinni yfir Vatnajökul

Sirrý Ágústsdóttir og Snjódrífurnar afhentu fulltrúum styrktarfélaganna Lífs og Krafts afrakstur söfnunar Lífskrafts samtals 6 milljónir króna á Kjarvalsstöðum í gær. Hvort félag fékk 3 milljónir króna.

Í byrjun sumars gengu Snjódrífurnar 165 km leið yfir Vatnajökul og söfnuðu áheitum fyrir félögin Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, og Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans.
Sirrý Ágústsdóttir upphafskona átaksins greindist með leghálskrabbamein 2010 og aftur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið var krónískt og töldu læknar að hún ætti eitt til þrjú ár eftir ólifað. Sirrý ákvað að fagna þessum tímamótum með því að ganga yfir Vatnajökul ásamt útivistarvinkonum sínum og á sama tíma að hvetja konur um land allt til að ganga og taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð. Markmiðið með göngunni var jafnframt að minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu eftir veikindi.

Sirrý Ágústdóttir forsprakki ferðarinanr sagði við afhendingu styrkjarins: „Það er besta tilfinning í heimi að geta afhent styrktarféð frá göngunni okkar yfir Vatnajökul. Við Snjódrífur erum gríðalega stoltar. Þjóðin stóð með okkur og við fundum fyrir þeim krafti upp á jökli. Við erum jafnframt ótrúlega þakklátar fyrir bakhjarlana okkar í þessu verkefni, 66°Norður, Arctic Fish og Landsvirkjun, að gera okkur kleift að láta söfnunarféð renna óskert til félaganna. Þetta er tímamót hjá Snjódrífum en við munum halda ótrauðar áfram til að ná settu markmiði. Næsta verkefni okkar er að ganga upp á hæsta tind landsins, Kvennadalshnjúk, í slagtogi ríflega 100 kvenna og klára þetta átak sem snýr að Krafti og Líf.“ Það til stóð að ganga á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk (Kvennadalshnjúk), með 100 konum síðastliðið sumar en vegna Covid faraldursins þá var göngunni frestað til ársins 2021.

„Það að Snjódrífurnar hafi safnað áheitum fyrir Kraft og vakið athygli á málefninu á meðan þær þveruðu Vatnajökul er ómetanlegt. Við erum þeim einstaklega þakklát og þær hafa svo sannarlega sýnt að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það var svo gaman að fylgjast með Snjódrífunum meðan þær þveruðu yfir jökulinn og einstakt að finna fyrir samhuginum í þjóðfélaginu öllu. Fjárhæð sem þessi kemur sér virkilega vel fyrir félagið og ekki hvað síst nú í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Með þeirra hjálp og allra þeirra sem hétu á þær getum við hjálpað öðrum,“ segir Elín Sandra Skúladóttir formaður Krafts.

Snjódrífurnar skipa auk Sirrýar, leiðangurstjórarnir, Vilborg Arna Gissurardóttir pól- og Everestfari og Brynhildur Ólafsdóttir Landvættaþjálfari og fjallaleiðsögumaður; Anna Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Heiða (Nikita) Birgisdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé.