Skip to main content

Snoðar sig til styrktar Krafti

By 16. ágúst 2021ágúst 19th, 2021Fréttir

Agla Björk Kristjánsdóttir missti pabba sinn úr krabbameini fyrir um fjórum árum síðan þá einungis 8 ára gömul. Í dag er Agla 12 ára gömul og ákvað hún að láta snoða sig til styrktar Krafti ef hún næði að safna 500.000 krónum.

Pabbi Öglu, Kristján, greindist með æxli í heila tveimur árum áður en hún fæddist. Í sama mánuði og hún fæddist var hann að klára lyfjameðferð. „Pabbi barðist við krabbameinið í 11 ár, með hléum. Hann lést í júlí árið 2017 þegar ég var 8 ára. Stuðningsfélagið Kraftur hjálpaði pabba og okkur fjölskyldunni mikið á meðan að veikindum hans stóð. Kraftur gaf pabba svo margt og mig langar til að gefa til baka. Þess vegna ákvað ég að fara af stað með söfnun fyrir Kraft,“ segir Agla.

Agla er með sítt rautt hár og ætlar að raka það af miðvikudaginn 18. ágúst. Hún hefur þegar náð að safna upphæðinni en hvetur fólk samt enn til að leggja söfnuninni lið. Hárið ætlar hún að gefa til samtakanna Locks of love sem að munu búa til hárkollur fyrir börn sem misst hafa hárið vegna veikinda. „Ég yrði þakklát ef þið gætuð hjálpað mér að safna fyrir þetta frábæra félag sem Kraftur er og lagt inn á bankareikning 0545-14-004255 kt. 221008-4050. Þetta er reikningsnúmer sem ég stofnaði fyrir Kraft og mun ég láta alla upphæðina sem safnast renna til félagsins,“ segir Agla. „Eins og pabbi sagði alltaf þá gerir margt smátt eitt stórt,“ segir Agla að lokum.

Við hvetjum þig til að aðstoða þessa hugrökku stelpu við að ná markmiði sínu og leggja sitt að mörkum til Krafts og þar með til stuðnings fyrir ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda. Söfnuninni líkur föstudaginn 20. ágúst kl. 16.