Skip to main content

Stærsti styrkur í sögu félagsins!

By 5. desember 2017Fréttir

Alls söfnuðust 6.771.518 krónur á Takk degi Fossa markaða og rennur upphæðin óskipt til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, afhenti Ástrósu Rut Sigurðardóttur, formanni Krafts, söfnunarféð á aðalskrifstofu Fossa við Fríkirkjuveg í Reykjavík í gær, fimmtudaginn 30. nóvember.

70 ungir einstaklingar greinast ár hvert

Takk dagurinn 2017 var haldinn í þriðja sinn 23. nóvember síðastliðinn, en um er að ræða árvissan viðburð hjá Fossum mörkuðum þar sem þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins eru látnar renna til góðs málefnis. Að auki taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland, og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með þeim hætti að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa, sem í staðinn renna til stuðningsfélagsins.

„Við erum afar ánægð með framtak Fossa og þakklát fyrir þann stuðning sem okkur er sýndur. Frá stofnun 1999 hefur Kraftur ekki áður hlotið jafn stóran styrk í einu lagi og nú. Styrkurinn kemur til góðra nota í starfsemi Krafts, en um 70 einstaklingar á aldrinum 18 til 40 ára greinast hér á landi með krabbamein ár hvert,“ segir Ástrós Rut Sigurðardóttir formaður Krafts.

Framtakinu vel tekið af viðskiptavinum

„Það hefur verið ákveðinn stígandi í þessu frá því að við byrjuðum með Takk daginn og erum við afar þakklát fyrir hversu vel þessu framtaki hefur verið tekið,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða. Í fyrra söfnuðust um fjórar milljónir króna sem runnu til Barnaspítala Hringsins og árið áður naut Mæðrastyrksnefnd góðs af afrakstrinum.

„Árangurinn nú fór hins vegar fram úr björtustu vonum og gleður okkur mjög að upplýsa að nú söfnuðust tæpar 6,8 milljónir króna, sem við höfum nú afhent Krafti. Okkur langar að þakka sérstaklega þeim viðskiptavinum okkar sem lögðu hönd á plóg sem og Kauphöllinni og T plús fyrir þeirra framlag,“ segir Haraldur.

Halda úti neyðarsjóði til að styrkja fólk

„Meginmarkið félagsins er að styðja við ungt fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þess, meðal annars með því að halda úti jafningjastuðningi, hagsmunagæslu, og öflugri fræðslu. Þá heldur Kraftur úti neyðarsjóði sem ætlað er að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent í fjárhagslegum erfiðleikum vegna mikils kostnaðar sem getur hlotist af veikindum viðkomandi, tekjutapi, frjósemisverndandi meðferð svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ástrós.

Leave a Reply