Skip to main content

Stafræn félagskort líta dagsins ljós

Kraftur hefur nú tekið upp stafrænt félagskort fyrir síma sem gefur félagsmönnum Krafts tækifæri á að auðkenna sig hjá ýmsum samstarfsaðilum félagsins sem og til að sýna fram á að félagsmaður sé með virkan lyfjastyrk hjá Apótekaranum. Fyrirtækið Smart Solutions hefur gert Krafti kleift að bjóða upp á þessa nýjung.

Í þónokkur ár hefur Apótekarinn boðið félagsmönnum Krafts upp á lyfjastyrk og þannig stutt félagsmenn sem greinst hafa með krabbamein með því að kosta lyf sem tengjast veikindum viðkomandi og aðrar tengdar vörur. Sérstök lyfjakort hafa verið prentuð á tveggja mánaða fresti til þess. Nú munu ný stafræn félagskort leysa gömlu kortin af hólmi þar sem félagsmenn geta auðkennt sig með félagskortinu og hvort þeir séu með lyfjastyrk. Auk þess veita stafrænu félagskortin öllum félagsmönnum í Krafti sérkjör hjá hinum ýmsu samstarfsaðilum Krafts sem vilja láta gott af sér leiða.

Smart Solutions er íslenskt sprotafyrirtæki sem er að þróa umhverfisvænar lausnir sem snúa að því að gera allt innihald gamla seðlaveskisins, og þar á meðal gömlu plast- og pappakortin, stafræn til notkunar í veskiöppum fyrir snjallsíma. Fyrsta lausn fyrirtækisins var útgáfa á íslenskum ökuskírteinum á stafrænu formi. „Þegar Kraftur hafði samband við okkur um samstarf slógum við strax til. Starfsemi Krafts er þeim ungu einstaklingum sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum ómetanleg og vildum við því gjarnan styðja við hana,“ segir Jón Jarl Þorgrímsson, framkvæmdastjóri Smart Solutions.

Félagsmenn í Krafti fá tölvupóst með upplýsingum um hvernig þau sækja stafræna félagskortið í símann sinn. Þeir fylgja svo leiðbeiningum og hlaða inn mynd af sér til þess að félagskortið geti verið virkt og er kortið svo geymt í íslenska SmartWallet smáforritinu fyrir Android og Apple Wallet fyrir iOS. „Við vonum svo sannarlega að þessi nýju félagskort munu nýtast félagsmönnum okkar vel. Með þessari nýjung viljum við geta létt undir með félagsmönnum og á sama tíma hvatt þau til hreyfingar, sjálfsræktar og útivistar sem og að skapa góðar stundir og minningar með sínum nánustu. Við erum í samstarfi við nokkra dygga samstarfsaðila sem vilja leggja málstaðnum lið og veita félagsmönnum okkar sérkjör gegn því að framvísa starfræna félagskortinu eða með afsláttarkóða sem sést aftan á kortinu,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Sérkjör til félagsmanna geta verið til lengri eða skemmri tíma en hægt er að lesa sér til um þau á vefsíðu Krafts ásamt því að sjá afsláttarkóða og aðrar upplýsingar á baksíða nýja stafræna kortsins, en nýjum sérkjörum er reglulega bætt við í hóp samstarfsaðila.

Við vonum að kortið komi að góðum notum. Ef félagsmenn lenda í vandræðum með að ná í kortið geta þeir haft samband við Lailu Sæunni Pétursdóttir, laila@kraftur.org.