Skip to main content

Stórir sem smáir lögðu Krafti lið

Þann 28. maí síðastliðinn hélt Kraftur norður yfir heiði á Akureyri og perlaði af Krafti ásamt fjöldanum öllum af sjálfboðaliðum. Um 500 manns og einn hundur lögðu leið sína í Brekkuskóla til að leggja góðu málefni lið og perla armbönd sem eru seld til stuðnings ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.

Perlað af Krafti á Akureyri er liður í árvekni- og fjáröflunarátaki Krafts – Hver perla hefur sína sögu – sem stendur nú yfir. Viðburðinn var haldinn í samstarfi við Minningarsjóð Baldvins Rúnarssonar. Í heild voru 915 armbönd perluð á fjórum klukkustundum af stórum sem smáum sjálfboðaliðum. „Það var svo gaman hjá okkur. Yndislegt að finna meðbyrinn á Akureyri og sjá hversu margir voru tilbúnir að koma inn úr góða veðrinu, leggja hönd á perlu og hjálpa þannig okkur að hjálpa öðrum,“ sagði Hrefna Björk Sigvaldadóttir, viðburðar- og fjáröflunarfulltrúi Krafts, eftir viðburðinn.

Við í Krafti þökkum öllum þeim sem gerðu okkur kleift að fara á Akureyri og gera þennan viðburð að veruleika. Við þökkum sérstaklega öllum sjálfboðaliðunum, Bakaríinu við Brúnna, Brekkuskóla, Icelandair Cargo, Höldur-Bílaleiga Akureyrar, Ölgerðinni, Krónunni, Kaffitár, OJ&K og öllum í Minningarsjóði Baldvins Rúnarssonar.

Nýju Lífið er núna armböndin eru til sölu í vefverslun Krafts, vefverslun Krónunnar sem og í völdum verslunum Krónunnar: Bíldshöfða, Borgartúni, Flatahrauni, Granda, Lindir, Mosfellsbæ, Norðurhellu og Selfossi. Einnig eru þau seld í Karakter í Smáralind, Company’s í Kringlunni og Kúnígúnd á Akureyri.

Hér má sjá myndir frá viðburðinum: