Skip to main content

Styrkir bæði gott málefni og íslenska framleiðslu

Þessa dagana stendur Kraftur fyrir vitundar- og fjáröflunarátaki þar sem verið er að vekja athygli á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Kraftur selur nú Lífið er núna húfur til styrktar starfseminni og fékk fatahönnuðinn, Heiðu Birgisdóttur, til liðs við sig. Við tókum smá spjall við hana.

„Mig langaði að vera með í þessu frábæra verkefni og styðja þannig við Kraft því þetta málefni er mér mjög hugleikið því ég greindist sjálf með frumubreytingar og fór í brjóstnám í kjölfarið og svo hef ég þónokkuð marga í kringum mig sem hafa greinst með krabbamein. Kraftur er að vinna frábært starf og ég vildi leggja mitt að mörkum,“ segir Heiða.

Undanfarin ár hefur Kraftur verið með armbandasölu og hafa Lífið er núna armbönd verið perluð af sjálfboðaliðum en sökum Covid-19 var ekki hægt að gera það í ár og brugðið á það ráð að búa til húfu. „Það kom upp sú hugmynd að gera húfuna alveg íslenska, styðja þannig við innviðið í landinu og framleiða hana hér á landi og þau í Varma voru svo mikið til í að gera þetta með okkur. Þú ert því að styrkja í raun tvö málefni í einu þegar þú kaupir húfuna þ.e. Kraft og íslenska framleiðslu en við viljum að sjálfsögðu að hún blómstri,“ segir Heiða. Hún segir enn fremur að hún hafi þurft að pæla mikið í hönnun húfunnar svo að sem flestir gætu notað hana. „Það fór mikil vinna af stað hjá mér og Bigga prjónameistara í Varma því húfan þurfti að vera þannig að sem flestir geta notað hana. Húfan mátti ekki vera of há eða lág, víð eða þröng og það getur verið ansi vandasamt að finna snið sem hentar öllum, bæði konum og körlum,“ segir Heiða.

Lífið er núna húfan er framleidd úr nýju íslensku lambsullarbandi sem er mýkra en áður hefur þekkst. Bandið er þróað og framleitt á Íslandi í samvinnu Varma við Ístex með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Í innra lagi húfunnar er notast við merinoull sem er prjónuð inn á milli þar sem húfan nemur við eyrun en það er gert til að gera húfuna mýkri. „Þetta nýja lambsullargarn er mjög mjúkt en margir eru samt viðkvæmir fyrir íslensku ullinni og því var brugðið á það ráð að blanda merino-ullinni við, sem er algjör snilld. Húfan er rosalega létt en á sama tíma mjög hlý og mjúk. Hönnunin endurspeglar það sem Kraftur stendur fyrir það er að lífið er núna. Húfan er með svörtu merki og eru stafirnar hvítir. Við gerðum hana í tveimur litum svörtum og svo appelsínugula Kraftslitnum sem var algjört möst,“ segir Heiða að lokum.

Þú getur nálgast Lífið er núna húfuna í vefverslun Krafts og vefverslun Símans sem og í verslunum símans og Geysir í Reykjavík og á Akureyri.

Hér má sjá myndir af húfunni