
Fimmtudaginn 26. júní hélt Kraftur árlega Sumargrillið sitt með pomp og prakt við Hlöðuna í Gufunesi. Margt var um manninn en um 140 félagsmenn komu saman og nutu sín í yndislegu veðri, en okkur til mikillar gleði voru veðurguðirnir virkilega góðir við okkur þetta árið!
Sumargrillið er hugsað sem fjölskylduskemmtun sem minnir okkur á að njóta líðandi stundar, því lífið er núna. Boðið var upp á ýmsa skemmtun fyrir alla aldurshópa og má þar nefna fjölbreytta leiki og þrautir um allt svæðið, Lalli töframaður mætti og skemmti, Sirkus Íslands sá um að gera allskyns blöðrudýr, opið var í klifurturninn, Hamborgararbúllan grillaði fyrir mannskapinn, ísbíllinn mætti og gladdi lítil kríli og fullorðna með ís í sólinni, Ölgerðin bauð upp á drykki, djúsí popp vakti mikla kátínu, andlitsmálun var í boði fyrir þau yngstu, Instamyndir tryggði að allir gætu átt fallegar myndir frá gleðinni og enginn annar en Prettyboi Tjokko tryllti allt í lokinn!
Virkilega fallegur dagur og skemmtilegt Sumargrill þar sem félagsmenn áttu góða stund með fjölskyldu og vinum, enda frábær stemning og skemmtun í boði.
„Okkur hjá Krafti þykir ótrúlega vænt um að geta haldið viðburð sem þennan með hjálp góðra aðila. Sumargrillið er einstakur vettvangur fyrir félagsmenn til að hitta jafningja og skapa góðar minningar með fjölskyldu sinni. Það er mikilvægt að börnin fái að taka þátt og upplifi góðar minningar í kringum veikindi foreldra sinna og sjái aðra foreldra í sömu sporum“, segir Sólveig Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krafts
Stjórn og starfsfólk Krafts sendir góðar kveðjur og þakkir til allra félagsmanna okkar sem komu á Sumargrillið og nutu dagsins með okkur. Auk þess sendum við þakkir til allra þeirra aðila sem gerðu okkur kleift að halda þennan viðburð með velvilja sínum og hjálpsemi:
- Hamborgarabúllan
- Hlaðan Gufunesi
- Höldur – Bílaleiga Akureyrar
- Instamyndir
- Ísbíllinn
- Lalli töframaður
- Ölgerðin
- Party.is
- Prettyboi Tjokko
- Sirkus Íslands
- Sonik
Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum fallega degi.