Skip to main content

Sumarstemning á Sumargrilli Krafts

Fimmtudaginn 24. júní hélt Kraftur hið árlega Sumargrill sitt í Guðmundarlundi í Kópavogi. Það var þvílík sumarstemning og dásamlegt að geta komið saman og notið líðandi stundar. Um 170 manns komu og nutu þess að hittast, skemmta sér og njóta samveru með öðrum Kraftsfélögum.

Sirkus Íslands var á svæðinu með andlitsmálningu, blöðrudýr og kandífloss fyrir yngstu kynslóðina og Wally trúður lék af alls oddi. Reiðskólinn Hestalíf var með hesta sem unnt var að láta teyma sig á og að sjálfsögðu voru hoppukastalar á svæðinu. Hamborgarabúllan sá um að grilla borgara ofan í mannskapinn og Ölgerðin sá um drykki. Fólk skellti sér líka í myndatöku hjá Instamyndum og skemmti sér konunglega við það.

Gugga Lísa tók Lífið er núna lagið og enginn annar en Herra Hnetusmjör hoppaði niður af sviðinu og djammaði með viðstöddum og fékk fólk til að hoppa eins og honum er einum lagið.

Alveg hreint dásamlegt Sumargrill þar sem stemningin var frábær og allir nutu þess að hittast á nýjan leik.

Stjórn og starfsfólk Krafts vill þakka sjálfboðaliðum sem komu og aðstoðuðu, öllum þeim sem komu á Sumargrillið og að sjálfsögðu öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera Sumargrillið að svona frábærum viðburði án ykkar hefði þetta aldrei tekist.

Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dásamlega degi