Skip to main content

Takk fyrir að hlaupa af Krafti

Við í Krafti erum ótrúlega snortin vegna alls þess stuðnings sem félagið hefur fengið í tengslum við Hlaupastyrk og Reykjavíkurmaraþonið sem var slegið af á síðustu stundu. Alls söfnuðust yfir 4 milljónir króna inn á www.hlaupastyrkur.is og viljum við þakka innilega öllum þeim sem hlupu sem og þeim sem hétu á þá. Ennfremur söfnuðust um 3,6 milljónir frá fyrirtækjum en þakkarheilsíða þess efnis var birt í Fréttablaðinu 24.september síðastliðinn.

„Þrátt fyrir að Reykjavíkurmaraþonið hafi verið slegið af þá hélt söfnunin áfram og var fólk hvatt til að hlaupa sína eigin leið. Það er ómetanlegt fyrir lítið félag eins og Kraft. Við erum svo þakklát öllum þeim einstaklingum sem hlupu af Krafti og söfnuðu áheitum fyrir félagið sem og þeim sem hétu á þá. Þetta sýnir svo og sannar að þrátt fyrir að á móti blási þá finnum við Íslendingar alltaf nýjar leiðir til að standa saman,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Kraftur brá á það ráð að halda Hlaupa- og hausthátíð fyrir hlaupara og Kraftsfélaga og hlupu yfir 100 manns með Krafti á þeim degi á meðan aðrir hlupu sína eigin leið. Takk öll fyrir að vera með okkur, eða hafa okkur í hjarta og njóta líðandi stundar og hlaupa til stuðnings ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum og takk þið öll sem hétuð á hlaupara. Það er út af fólki sem ykkur sem við getum verið til staðar. Með ykkar hjálp getum við hjálpað öðrum.