Skip to main content

Team Tinna styrkir Kraft um 300 þúsund

Team Tinna er hópur sem myndaðist í tengslum við veikindi Tinnu Óskar Grímarsdóttur. Þau vildu sýna henni stuðning í verki, hvað hún væri dýrkuð og dáð. Enda var hún sjálf mögnuð manneskja sem var virkilega dulega að gefa af sér og styðja aðra í veikindum. Þegar hún svo veikist sjálf varð hún enn öflugri í að styðja og styrkja aðra. 

Hópur aðstandenda Tinnu vildu gleðja hana þegar hún var búin að lenda í endalausum bakslögum í veikindunum. Fengu þau heilan Tinnu-her til að klæða sig skrautlega og ganga í skrúðgöngu niður götuna hennar. Fremst var vel bleikskreyttur pallbíll, á pallinum var tónlistarmaðurinn Heiðmar Eyjólfsson söng og spilaði á gítar og Tinnu herinn auðvitað með sem stoppaði fyrir utan hjá Tinnu og hélt smá söngstund. 

Team Tinna ásamt Tinnu stóð að allskonar viðburðum og uppákomum og voru mjög áberandi bleik og brosandi í Reykjavíkurmaraþoninu en þá hljóp hópurinn til styrktar Krafti. Eftir að Tinna lést 11. febrúar 2023 kom ekki annað til greina hjá hópnum en að halda þessu góða starfi áfram og í leiðinni halda minningu Tinnu lifandi og var Team Tinna formlega stofnað 19. maí 2023 á afmælisdegi Tinnu Óskar sem telur nú 145 meðlimi. 

Stefna á að vera ENN bleikari í ár.

Þau hlupu því í fyrsta sinn undir formlegum merkjum félagsins Team Tinna í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra og gekk vel að safna. Team Tinna stefnir á að gera enn betur í hlaupinu í ár og vera ENN bleikari en í fyrra og safna miklu meira. Þau telja niður að hlaupinu og ætla því að veita félagssamtökum og einstaklingum styrki í hverjum mánuði að hlaupinu. 

Þegar ég talaði við Huldu um að halda Perlað af krafti á Akranesi fannst okkur kjörið að veita fyrsta formlega styrkinn okkar þá en við vorum búin að ákveða að hann færi til Krafts. Kraftur skipti Tinnu okkar miklu máli og einnig okkur sem aðstandendur hennar. Þar komst hún í samband við fólk sem hún get talað við um veikindin, fékk stuðning, hvatningu og gleði.” segir Andrea Ýr Jónsdóttir formaður Team Tinna. 

Við þökkum Team Tinnu kærlega fyrir veglegan styrk til félagsins og fyrir frábæran Perlað af Krafti viðburð á Akranesi. 

Markmið TeamTinna er að dreifa gleði, jákvæðni og náungakærleik, styrkja og kæta samfélagið okkar á Akranesi og það sem er okkur mikilvægast: að styrkja góð málefni, hvort sem það eru félög eða einstaklingar. Okkur langar að halda fleiri skemmtilega viðburði og erum við með mikið af frábærum hugmyndum. Einnig finnst okkur mikilvægt að byggja upp betra stuðningsnet fyrir þau sem hafa greinst með krabbamein á Akranesi og aðstandendur.