Skip to main content

Þú getur hlaupið af Krafti!

Við hvetjum alla sem ætla að hlaupa eða ganga í Reykjavíkurmaraþoninu að hlaupa af Krafti og safna áheitum fyrir félagið og þannig hjálpa okkur að hjálpa ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum. Á hverju ári eru 70 ungir einstaklingar sem greinast með krabbamein. Það hefur ekki bara áhrif á þann sem greinist heldur fjölmarga í kringum hann. Kraftur leggur sig fram við að styðja við bakið á þeim með fjárhagslegum og sálfélagslegum stuðningi.

Áheit Reykjavíkurmaraþonsins eru ein af helstu fjáröflunarleiðum félagsins og því skiptir það miklu máli fyrir okkur að sem flestir hlaupi og safni áheitum fyrir félagið. Við hvetjum ykkur eindregið til að skrá ykkur til leiks  eða heita á hlaupara sem eru skráðir. Við viljum um leið þakka öllum þeim sem hafa þegar skráð sig til leiks og þeim sem hafa heitið á þau innilega fyrir stuðninginn. Þúsund þakkir fyrir ykkar frábæra framlag til félagsins.

Allir sem hlaupa af Krafti fá hlaupabol frá félaginu og gjöf í kaupbæti og er hægt að nálgast það á básnum hjá Krafti á Fit & Run skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþonsins sem verður haldin fimmtudaginn 18. og föstudaginn 19. ágúst í Laugardalshöllinni. Einnig bendum við á Facebook-hóp fyrir hlaupara Krafts þar sem við komum áleiðis upplýsingum um maraþonið og annað sem tengist hlaupinu.

Við hvetjum alla áfram

Kraftur verður að sjálfsögðu með hvatningarstöð í sjálfu maraþoninu þar sem við bjóðum upp á stuðning, „high-five“ og „air-five“ fyrir alla sem vilja. Ef þú hleypur fram hjá okkur í Kraftsbol þá færðu enn meira lófaklapp og jafnvel „bylgju“.

Góð ráð á hlaupadeginum sjálfum

Eitt besta ráðið fyrir hlaupadaginn sjálfan er að muna að lífið er núna, brosa framan í alla og njóta þess að geta lagt þitt að mörkum fyrir góðan málstað.