Skip to main content

Um hundrað konur á Kröftugri kvennastund

By 15. október 2022október 16th, 2022Fréttir

Í tilefni af Bleikum október hélt Kraftur Kröftuga kvennastund í Iðnó þriðjudaginn 11. október þar sem um 100 konur komu saman og hlustuðu á magnaðar frásagnir. Markmið kvöldsins var að fá konur til að deila reynslu sinni, hvaðan þær sækja sinn styrk og hvernig þær hafa tekist á við áskoranir í lífi og starfi. En þær sem deildu reynslu sinni áttu það allar sameiginlegt að krabbamein hefur haft áhrif á líf þeirra á einhvern máta.

Elín Skúladóttir, formaður Krafts, setti stundina og tóninn fyrir kvöldið en fjórar frábærar konur deildu sinni sögu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sagði fyrst frá sinni reynslu en hún var einungis um tvítug að aldri þegar báðir foreldrar hennar greindust með krabbamein með stuttu millibili. Tekist hefur verið að halda sjúkdómi föðurs hennar niðri en móðir hennar tapaði sinni baráttu nokkrum árum eftir greiningu. Áslaug sagði afar fallega frá móður sinni og hvernig hún hefur lært að standa með sjálfri sér í gegnum erfiðleika sem lífið býður upp á. Tinna Grímarsdóttir, framkvæmdastjóri og félagskona í Krafti, átti hug og hjörtu allra í salnum þegar hún deildi sinni baráttu við fjórða stigs ristilskrabbamein. Tinna tekur lífinu af algjöru æðruleysi og deildi á sinn fallega og hjartnæma hátt hvernig hún hefur tekist á við sjúkdóminn. Bára Ragnhildardóttir O’Brien, verkefnastjóri og félagskona í Krafti, deildi með viðstöddum á berskjaldaðan og hjartnæman hátt hvað veikindin hafa kennt henni, hvernig hún tekur einn dag í einu og hlustar á sjálfa sig en Bára greindist með brjóstakrabbamein fyrr á þessu ári. Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands, fjölmiðlakona og fyrrum framkvæmdastjóri Krafts sem starfar í dag hjá Marel, tók síðan til máls og deildi sinni áfallasögu og hvernig krabbamein hefur snert hana og fjölskylduna. En Hulda greindist með BRCA genið og lét fjarlægja brjóst og eggjastokka í kjölfar greiningar. .

Síðust var síðan Snjólaug Lúðvíksdóttir, uppistandari og handritshöfundur. Snjólaug fangaði allan salinn og það voru þakklátar konur sem gengu út úr Iðnó þetta kvöldið, sem bæði höfðu grátið og hlegið.

Kynnar kvöldsins voru hjónin Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir. Þær sáu um skelegga og frábæra fundarstjórn en þær höfðu einstakt lag við að halda fallega um kvennastundina.

Kvöldið var algjörlega dásamlegt í alla staði og þakkar Kraftur öllum þeim kröftugu konum sem gáfu af sér og deildu sinni reynslu, sem og öllum þeim frábæru konum sem deildu rýminu með okkur. Eins og kynnarnir sögðu frá, þá myndaðist alveg mögnuð stemning í rýminu sem við deildum saman.

Kraftur þakkar öllum þeim sem komu á stundina, deildu sinni reynslu og þeim sem gerðu okkur kleift að halda svona einstakan viðburð.

Við þökkum sérstaklega:

Hér má sjá nokkrar myndir frá Kvennastundinni sem Birgir Ísleifur, ljósmyndari tók.