Skip to main content

Vefgerðin gefur Krafti nýja heimasíðu

By 14. maí 2017mars 25th, 2024Fréttir

Þeir eru margir sem vilja leggja Krafti lið – ýmist með beinum fjárframlögum eða með því að gefa vinnu sína. Í september á síðasta ári stóð bökunarbloggið Blaka, sem Lilja Katrín Gunnarsdóttir heldur úti, fyrir bökunarmaraþoni í 24 stundir, til styrktar Krafti,  sem vakti mikla athygli. Lilja og eiginmaður hennar, Guðmundur R. Einarsson, reka saman Vefgerðina sem sérhæfir sig í vefsíðugerð og hönnun. Í kjölfar bökunarmaraþonsins bauðst Vefgerðin til að búa til nýja og glæsilega heimasíðu fyrir Kraft, án endurgjalds. En hvað fær þau hjón til að standa svo myndarlega við bakið á félagi eins og Krafti?

„Við Lilja eigum og rekum Vefgerðina sem sérhæfir sig í vefsíðugerð fyrir einstaklinga og fyrirtæki og tekur jafnframt að sér ýmiss konar hönnun. Ég hafði séð að kominn væri tími á nýja vefsíðu fyrir Kraft og þá ákváðum við að bjóða félaginu að hanna og setja upp vandaða vefsíðu sem er einnig með vefverslun,“ segir Guðmundur en þess má geta að hann hannaði m.a.  vefsíðu Daily Mail sem er ein stærsta fréttavefsíða heims. Auk hennar hefur hann gert vefsíður fyrir fjölmörg fyrirtæki og félög, t.d. vefsíðu Páls Óskars, Saga travel og Secret Solstice svo enhverjar séu nefndar en hann hefur mikla reynslu af vefsíðugerð fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. „Við Lilja vorum sammála um að gefa vinnu okkar við vefsíðugerð Krafts,“ segir hann og þau Lilja fá stórt faðmlag að launum. Þau hjón vinna samhent í Vefgerðinni en auk þess heldur Lilja úti Blöku blogginu og skrifar auk þess fyrir blaðið Gay Iceland.

Við þökkum Vefgerðinni innilega fyrir þetta rausnarlega framlag til félagsins og getum með stolti státað okkur af nýju heimasíðunni okkar 🙂