
Alls söfnuðust 2.717.310 krónur til styrktar Krafti yfir Jazzþorpshelgi með sölu á húsgögnum úr Góða hirðinum.
Jazzþorpið í Garðabæ fór fram á Garðatorgi í maí og var þá torginu breytt í ævintýraheim með vel völdum húsgögnum og smámunum frá Góða hirðinum. Tónlistarviðburðir, matur og drykkur sem og listamenn að störfum í fallegu umhverfi skapaði einstaka stemningu. Allir munir voru til sölu til styrktar Krafti og gáfu Trefjar heitan pott sem boðinn var upp í Jazzþorpinu.
Mikil stemning var alla helgina sem hátíðin var haldin á Garðatorgi og margt um manninn. Mikil vinna liggur að baki svona glæsilegri hátíð og eiga viðburðarhaldara mikið lof skilið.
„Okkur hjá Krafti þykir afar vænt um að hafa verið höfð í huga í þessari glæsilegu söfnun. Fjármagnið mun nýtast okkur vel, en söfnun sem þessi skiptir okkur miklu máli. Það er ekki síður þakklátt þegar málefnum ungs fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra er lyft upp með þessum hætti, því mikilvægt er að veita fólki innsýn í þær áskoranir sem fylgja því að greinast ungur með krabbamein“, segir Sólveig, framkvæmdastjóri Krafts.
Á myndinni má sjá Ómar Guðjónsson, listrænann stjórnanda Jazzþorpsins, Ruth Einarsdóttur, rekstrarstjóra Góða hirðisins og Almar Guðmundsson, bæjarstjóra Garðabæjar, afhenda Sólveigu, framkvæmdastjóra Krafts, styrkinn á dögunum.