Skip to main content

Yfirlýsing frá Krafti vegna breytinga á krabbameinsskimun kvenna

Í ljósi nýlegra breytinga á brjóstaskimun kvenna sendir Kraftur, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Þann 1. janúar 2021 tóku gildi breytingar er varða það aldursbil kvenna sem boðið verður í reglubundna brjóstaskimun. Í breytingunum fólst að aldursbilið, sem var 40-69 ára, er nú 50-74 ára. Á sama tíma og stjórn Krafts fagnar því að konum sé boðið í skimun til 74 ára aldurs, þá harmar stjórn það mjög að landlæknir og skimunarráð hafi vikið frá bæði evrópskum leiðbeiningum sem og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein sem hvoru tveggja leggja til að skimun hefjist við 45 ára aldur. Stjórn Krafts furðar sig ennfremur á því að ákvörðun sem þessi sé tekin án þess að henni fylgi greinargóður rökstuðningur.

Stjórn Krafts vill ítreka þá kröfu að haldinn verði opinn fundur með þeim aðilum sem að þessari ákvörðun komu, þar sem þeim myndi gefast tækifæri til að rökstyðja þessar breytingar. Kraftur, félag ungra krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra, beinir þeirri kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir sem geta haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrir líf fólks séu teknar á skýrum og vísindalegum grunni.

Fyrir hönd stjórnar Krafts,
Elín Sandra Skúladóttir, formaður

UPPFÆRT 13. janúar kl. 16:30 

Við vorum rétt í þessu að fá upplýsingar að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta um ótiltekinn tíma breytingum á neðri mörkum aldursviðmiða vegna lýðgrundaðra skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Sjá nánar hér. 

Umræðan síðustu daga um breytingu á skimunaraldri kvenna fyrir krabbameinum hefur snert marga og hefur umræðan á miðlum endurspeglað það.

Það er gleðiefni að stjórnvöld hlusti á raddir almennings og kröftugt að sjá hvað samtakamáttur fólks síðustu daga meðal annars á samfélagsmiðlum hefur mikil áhrif.
Við í Krafti hvetjum til opinnar og upplýstar umræðu um málið.
Við þekkjum það nú á tímum heimsfaraldurs hvað upplýsingafundir þríeykisins hafa skipt sköpum í samtakamætti þjóðarinnar gegn veirunni og erum við viss um að muni skila okkur betri niðurstöðu hvað skimanir í landinu varðar.