Skip to main content

Ókeypis lyf fyrir ungt fólk með krabbamein

By 6. júní 2017mars 25th, 2024Fréttir

Apótekarinn hefur í samstarfi við stuðningsfélagið Kraft hrundið af stað átaki sem ætlað er að styðja við félagsmenn Krafts sem lent hafa í fjárhagsörðugleikum vegna sjúkdóms síns. Kraftur hefur það að leiðarljósi að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess en innan félagsins hefur verið starfræktur neyðarsjóður sem styrkir meðlimi sem lenda í fjárhagslegum erfiðleikum vegna læknis- og lyfjakostnaðar.

Apótekarinn hefur nú í samstarfi við Kraft stofnað til átaks sem ætlað er að styðja enn betur við þá félagsmenn Krafts sem á þurfa að halda með því að kosta lyf og aðrar tengdar vörur.

„Við höfum lengi fylgst með því aðdáunarverða starfi sem unnið er innan Krafts og því var það auðveld ákvörðun að fara af stað í þetta átak með þeim,“ segir Kjartan Örn Þórðarson, fulltrúi Apótekarans.

Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður átakinu til handa sem Apótekarinn mun kosta að fullu og var samningur þess efnis undirritaður þann 1. júní.  

„Stuðningur sem þessi er ómetanlegur fyrir okkar félagsmenn sem oft þurfa að greiða háar upphæðir fyrir lyf sem tengjast krabbameininu en eru ekki niðurgreidd í öllum tilfellum af Sjúkratryggingum Íslands. En þrátt fyrir þennan góða styrk verður það áfram eitt af helstu baráttumálum Krafts að krabbameinsveikir þurfi ekki að greiða fyrir lyf sem tengjast sjúkdómi þeirra,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Kraftsfélagar geta sótt um styrk í sjóðinn í gegnum félagið á https://kraftur.org/thjonusta/styrkur-til-lyfjakaupa/