Skip to main content

Perlað af krafti á Hraunvallaleikunum

Árlega heldur Hraunvallaskóli í Hafnarfirði hina svokölluðu Hraunvallaleika en þá er hefðbundið skólastarf brotið upp í fjóra daga þar sem nemendur og starfsfólk eiga góða daga við leik og skemmtun. Þar á meðal perla þau Lífið er núna armböndin af krafti.

Hraunvallaleikarnir hafa verið haldnir í yfir áratug og hefur Krafti verið boðið að taka þátt í leikunum undanfarin ár og verið gríðarlega vel tekið. „Fyrstu leikarnir mínir voru árið 2018 en þá hafði ég séð perluviðburð hjá Krafti í sjónvarpinu en hafði sjálf ekki komist á hann. Því langaði mig að setja upp slíkan viðburð á stöðinni minni á Hraunvallaleikunum,“ segir Ragnheiður Berg, umsjónarkennari í 7. bekk í Hraunvallaskóla og umsjónarmaður perlustöðvarinnar á Hraunvallaleikunum.

Á leikunum er nemendum skipt í hópa þar sem hver hópur hefur ákveðið númer og fara þeir á milli stöðva sem staðsettar eru um allan skólann, alls 54 stöðvar. Samtals eru um 11-13 nemendur í hverjum hópi og er aldursblöndunin frá 1. og upp í 10. bekk. Markmiðið með því er að tengja saman nemendur á mismunandi aldri, efla samskipti og góðan skólaanda. Að jafnaði eru nemendurnir í 11 mínútur á hverri stöð en þau fá tvöfalt lengri tíma á perlustöð Krafts. „Hver kennari heldur utan um sína stöð í fjóra daga og ég sit og perla með nemendum af kappi alla dagana, keppist við að ná sem flestum armböndum enda mikil keppnismanneskja. Ég hef í raun ekki hugmynd um hvað ég er búin að perla mörg armbönd,“ segir Ragnheiður hlæjandi.

Í heildina voru perluð 825 armbönd þetta árið og þakkar stjórn og starfsfólk öllum í Hraunvallaskóla innilega fyrir stuðninginn og að hjálpa okkur að hjálpa öðrum.

Ef þinn skóli eða fyrirtæki vill halda perluviðburð hjá sér er hægt að skoða málið hér og/eða senda tölvupóst á Hrefnu Björk Sigvaldadóttur  sem sér um perluviðburði Krafts.

Hér má sjá nokkrar myndir frá Hraunvallaskóla: