Skip to main content

Topp tækjasalur fyrir FítonsKraft

Það að geta boðið félagsmönnum Krafts upp á endurhæfingu í frábærri aðstöðu í Heilsuklasanum er alveg hreint frábært. En nýverið var undirritaður samstarfssamningur milli Krafts og Heilsuklasans þar sem FítonsKraftur fær afnot af líkamsræktaraðstöðu Heilsuklasans sér að kostnaðarlausu. Að auki fá meðlimir FítonsKrafts að kaupa mánaðarkort í Heilsuklasanum á sérstökum kjörum.

„Það er ómetanlegt að fá aðstöðu sem þessa okkur að kostnaðarlausu,“ sagði Atli Már Sveinsson, þjálfari FítonsKrafts, við undirritun samningsins. „Það hefur sýnt sig og sannað að endurhæfing í formi hreyfingar getur spornað við ýmsum neikvæðum áhrifum krabbameinsmeðferðar og stuðlað að umtalsvert betri lífsgæðum meðan á henni stendur. Einstaklingarnir verða þannig betur í stakk búnir til að takast á við lífið í kjölfar veikindanna og í því felst mikill ávinningur,“ sagði Atli enn fremur. Líkamsræktaraðstaða Heilsuklasans er til fyrirmyndar og er ljóst að iðkendum FítonsKrafts muni líða vel þar. „Í tækjasal Heilsuklasans er þægilegt andrúmsloft þar sem öllum er frjálst að æfa á sínum forsendum. Fjölbreytileiki iðkenda Heilsuklasans endurspeglar þá sýn okkar að hreyfing er heilsubót fyrir alla,“ sagði Lars Óli Jessen, fagstjóri líkamsræktar Heilsuklasans.

FítonsKraftur er endurhæfingarhópur í formi hreyfingar og útivistar fyrir ungt fólk á aldrinum 18 – 40 ára sem greinst hefur með krabbamein. Hópurinn er einnig hugsaður sem jafningjastuðningur og hvatning fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í endurhæfingu. Lögð er áhersla á að miða æfingarnar að hverjum og einum svo allir geti tekið þátt. Endurhæfingin felst í reglulegum æfingum og útivist undir handleiðslu Atla Más Sveinsonar íþróttafræðings sem hefur sérhæft sig í þjálfun krabbameinsgreindra og munu æfingar vera í tækjasal Heilsuklasans tvisvar í viku.

Þú getur skráð þig í FítonsKraft hér.

Á myndinni eru Atli Már Sveinsson, þjálfari FítonsKrafts og Lars Jessen, fagstjóri líkamsræktar Heilsuklasans.